top of page

 

 

Tengiliður hjartarhundar er Margrét Nilsdóttir
ulfsgrama@gmail.com - gsm: 823-3152

Hjartarhundur samkvæmt FCI

Hjartarhundur - Deerhound

 


Uppruni og saga

Hjartarhundur eða „deerhound“ er ættaður frá hálöndum Skotlands þar sem hann var um aldaraðir notaður til að veiða hjartardýr. Íslenska heiti hundsins er líka dregið af þessari notkun, í gömlu góðu hundabók Fjölva heitir hann skoski hjartarhundur. Uppruni tegundarinnar er óljós, eins og raunin er með flest gömul hundakyn, en elstu heimildir um hraðskreiða, strýhærða og stóra veiðihunda á þessum slóðum eru síðan 800 A.D. Lýsingar á tegundinni má finna í ýmsum ritum undir ýmsum nöfnum allt frá 14. öld. Deerhound var fyrst sýndur í Englandi árið 1860 og opinber ræktunarmarkmið tegundarinnar voru samþykkt árið 1901.

Útlitsleg einkenni

Deerhound er líkur greyhound, en er stærri og stórbeinóttari. Æskileg hæð rakka á herðakamb er 76-80 cm. en tíkurnar mega vera minni, þó helst yfir 70 cm. Feldurinn er grófur og ójafn, næstum eins og vír viðkomu, en mýkri á höfðinu, bringunni og kviðnum. Í dag eru þeir alltaf gráir í ýmsum tilbrigðum en aðrir viðurkenndir litir eru ljósgulur og rauðgulur. Örlítið hvítt merki á bringu, hvítar tær og hvít týra er í lagi en aðrir og stærri hvítir flekkir eru ekki leyfðir. Vaxtarlagið er líkt og á dæmigerðum mjóhundi; brjóstkassinn er djúpur, höfuðið frekar lítið, grannt og aflangt, hálsinn langur og sterklegur og skottið borið eins og mjóhunda er siður.
Hreyfingarnar eru fyrirhafnarlausar, hundurinn tekur löng skref og fjaðrar vel.
Deerhound nær ekki sama hraða og greyhound en er engu að síður ótrúlega hraðskreiður og lipur.

Skapgerð og þjálfun

Deerhound er með yndislega skapgerð, barngóður, yfirvegaður og hvers manns hugljúfi. Hann er afleitur varðhundur því að tortryggni finnst ekki í hans orðabók. Innbrotsþjófum væri heilsað, líkt og öðrum gestum, kurteisislega og yfirvegað. Veiðieðlið er ákaflega sterkt og mikilvægt er að kynna hvolpa snemma fyrir öðrum heimilisdýrum og gera þeim ljóst að þau eru ekki
leyfileg bráð. Það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef óagaður deerhound sér kött, kanínu eða jafnvel sauðkind í fjarska, þar sem þessi hundur er fullfær um að elta uppi, yfirbuga og drepa fullvaxinn 150 kílóa hjört! Deerhound er auðveldur í umgengni og það fer furðu lítið fyrir honum á heimili, þrátt fyrir stærðina. Hann er rólegur og hálfgerð sófakartafla innandyra en breytist í óþreytandi þeytispjald þegar út er komið. Hann er ánægðastur ef að hann fær mikla hreyfingu á hverjum degi, bæði í taumi og laus. Deerhound er yfirleitt hlýðinn og auðþjálfaður hundur, lærir hratt og vill flest fyrir mann gera. Hann
verður samt fljótt leiður á sífelldum endurtekningum eða tilgangslausum skipunum og hefur því sjaldan náð langt í skipulögðum hlýðnikeppnum.

Umhirða og heilsa

Flestir ræktendur aðhyllast þá kenningu að hvolparnir þurfi að fá eins mikla hreyfingu og þeir sjálfir telja sig þola. Ótakmarkaður leikur og lausahlaup eru það besta sem hægt er að bjóða þeim og til að þeir nái fullum þroska er þessi mikla hreyfing í uppvextinum þeim lífsnauðsynleg. Deerhound er hraustur og tiltölulega langlífur miðað við stærð og nær oftast 10-12 ára aldri og margir verða enn eldri. Mikilvægt er að láta hann aldrei reyna mikið á sig rétt eftir máltíðir þar sem slíkt getur orsakað þembu eða snúinn maga sem er stórhættulegt og yfirleitt banvænt ef ekkert er að gert.
Feldinn þarf að reyta einu sinni til tvisvar á ári til að rýma fyrir nýjum hárum. Ef þetta er gert rétt fer hann lítið úr hárum þess á milli. Gott er að bursta yfir feldinn vikulega en önnur feldhirða er ónauðsynleg. Best er að baða hann sjaldan enda er það yfirleitt óþarfi, feldurinn safnar ekki miklum óhreinindum og það er nánast engin „hundalykt“ af honum.

"The most perfect creature of Heaven?"

Deerhound hefur aldrei komist í tísku og það er lítil hætta á því að það gerist þar sem flestum finnst hann tætingslegur og jafnvel ljótur. Hann er heldur ekki nógu ógnandi í útliti til að höfða til
handrukkara og reðuröfundara. Deerhound á samt sína hörðu aðdáendur sem hafa
haldið tegundinni óbreyttri og ekki fallið í þá gryfju að gera hann „nútímalegri“ eða „fallegri“ og vonandi breytist það ekki í bráð. Einn af frægari skáldum Breta, Sir Walter Scott, átti deerhound-blending sem hét Maida og var honum afar kær. Hann var heillaður af tegundinni og orti svo :

"The staghound weary with the chase, Lay stretched upon the rushy floor,
And urged in dreams the forest race
From Teviot-stone to
Eskdale-moor".

Hann á einnig heiðurinn á yfirskrift þessarar efnisgreinar, hógværð á ekki heima í lýsingum á deerhound. Drottningar, hefðarfólk og skáld hafa heillast að tegundinni í gegnum tíðina og margir hafa
fundið sig knúna til að tjá aðdáun sína í orðum á undan mér og gert það betur.
Ég ætla að enda þennan pistil á orðum Mrs. "Abbotsford" Armstrong sem skrifaði svo:
Tilvitnun: "If anyone wants a delightful companion, one who will give all his great heart?s devotion to his owner, who will either rejoice in the gaiety of a happy mood, or noting the serious humour of his
beloved master, walk with his muzzle in the hand he so loves, let them before all other breeds, keep and cherish that most noble, most historic and romantic dog, the Scottish deerhound."

Texti skrifaður af Margréti Nilsdóttir.

Heimildir:
J. Cunliffe,
Scottish Deerhound, USA 2005
A.N. Hartley, The Deerhound, Peterborough 1972
B. Heidenreich, Your Scottish Derrhound Primer, Ontario 2005

bottom of page