top of page

Tengiliður Whippet: Guðrún Finnboga
Netfang:finnbogadottir1@gmail.com
Gsm: 848-1173

Tegundarlýsing Whippet samkvæmt FCI

Whippet

FCI staðall N° 162

Tegundarhópur 10: Mjóhundar

Notkun: Veiðihundar sem hlaupa upp bráðina


 

Æskileg hæð á herðarkamb

Rakkar 47-51 cm

Tíkur 44-47 cm

Eðli

Whippet er meðalstór hlaupahundur með sterkt veiðieðli. Hann eltir upp bráð sína og notar til þess sjónina (e. sight hounds). Það er auðvelt að þjálfa whippet, en eins og gengur og gerist geta hvolpar verið uppátækjasamir og látið hafa sér. Flestir róast þó mikið um 2ja ára aldurinn. Það er auðvelt að heillast að tegundinni og ansi margir whippet eigendur eru með fleiri en einn whippet. Það er oft talað um að whippet hundar hafi tvær stillingar, annars vegar er það þessi mikla snerpa og mikli sprengjkraftur sem sést þegar hundurinn hleypur og hins vegar hundurinn sem liggur í sófanum helst undir teppi. Whippet er góður félagi sem elskar að vera með fjölskyldu sinni.

Whippet er almennt heilsuhraust tegund og nær að jafnaði um 12 ára aldri. Passa þarf uppá þyngdina hjá mjóhundum. Helstu sjúkdómar sem hrjá whippeta eru hjartasjúkdómar, sumir whippetar geta verið viðkvæmir í maga og þá helst á meðan þeir eru ennþá ungir.

 

Feldur

 

Whippet er snögghærður hundur með einfaldan feld. Hann fer því ekki mikið úr hárum og feldurinn krefst ekki mikillar umhirðu, en þar sem feldurinn er þunnur er whipptetinum hættara við að fá sár sem stundum þarf að sauma.., Þeir eru þó harðir af sér og oftast er hægt að sauma þá í staðdeyfingu. Þar sem þeir ná ekki að slíta klónum þarf að passa að klippa klær reglulega, gott er að gera slíkt 2-4 sinnum í mánuði.

Þar sem mjóhundum er hætt við að fá tannstein, er gott að tannbursta þá reglulega..


 

Hreyfing

 

Þó að whippet sé hlaupahundur, þá er hann ekki kröfuharður á mikla hreyfingu. Hundurinn þarf þó að fá að hlaupa reglulega og teygja úr sér að minnsta kosti 1-2 sinnum í viku en þess á milli duga honum venjulegar taumgöngur líkt og öðrum hundum. Þegar farið er með whippet í lausahlaup þarf að vera vakandi gagnvart veiðieðli þeirra og því er nauðsynlegt að þjálfa upp gott innkall hjá hundinum.


 

Uppruni

 

Nokkrar sögur fara af uppruna whippet. Samkvæmt rómantísku útgáfunni hefst saga hans í Róm og Egyptalandi til forna. Óteljandi myndir, styttur, freskur og leirker skreytt smávöxnum mjóhundum sem líkjast mjög Whippet styðja þær frásagnir. Rómverjar mátu veiðar með mjóhundum mikils og eru til lofsverðar frásagnir af litlum snöggum hundum sem hlupu uppi minni bráð.
Gallar og Keltar höfðu samt sem áður alla yfirburði í veiðum með hunda og þeirra áhugi hafði þróast frá því aðalmarkmiði að fara heim með bráðina og voru veiðarnar orðnar að tómstundaiðju þeim til skemmtunar. Uppáhaldsiðja þeirra var að elta hjört þar til hann örmagnaðist eða sleppa tveimur litlum “greyhound” mjóhundum á sama tíma. „Gallar veiða ekki til að ná bráðinni heldur til að horfa á hundana sína vinna saman með snerpu og hraða. Ef hérinn sleppur frá hundunum kalla þeir hundana ti lbaka og gleðjast yfir heppni og yfirburðum mótherjans“, skrifaði rómverski sagnfræðingurinn og heimspekingurinn, Arrian, sem var uppi í kringum 86-160.

Efalítið fléttast þetta inn í sögu whippet tegundarinnar, en það er þó ekki fyrr en árið 1891 sem whippet er viðurkenndur og skráður sem tegund hjá breska hundaræktarfélaginu. Um miðja 19. öld þróaðist sá whippet sem við þekkjum í dag á Norður-Englandi. Þá pöruðu fátækir breskir námuverkamenn smágerðum greyhound mjóhundum með terrier-hundum og útkoma þessarar blöndunar varð lítill, harðger, snöggur og þolmikill hundur.

Á þeim tíma þótti betra að hundar væru ekki of stórir og þar af leiðandi dýrir í rekstri. Hundurinn þurfti þó einnig að vera til gagns fyrir heimilið og það var whippet svo sannarlega. Hann gat veitt héra í matinn, haldið hita á börnunum, sem hann deildi rúmi með, á nóttunni og jafnvel bætt fjárhag heimilisins á sunnudögum þegar haldnar voru hlaupakeppnir eða svo nefndar „rag-racing“. Þar gat sprettharður whippetinn grætt meira á nokkrum sekúndum en sem nam vikutekjum námuverkamannsins. Það var í þessum keppnum sem whippet fékk viðurnefnið „veðhlaupahestur fátæka mannsins“. Sprettharður whippet gat því reynst dýrmætasta eign námuverkamanns og var þess því gætt að whippetinn fengi sinn kjötbita, jafnvel þó aðrir fjölskyldumeðlimir færu í soltnir í háttinn eftir magra máltíð af þurrum brauðskorpum.


 

Allir litir eru leyfilegir hjá whippetum

gunnur4.jpg
selma2.jpg
selma15.jpg
bottom of page